news

Aldingarður æskunnar

05. 06. 2020

Leikskólanum bauðst á vordögum að taka þátt í spennandi verkefni sem ber heitið Aldingarður æskunnar. Verkefnið snýst um að ræktuð verði aldintré eins og t.d. epla- og ávaxtatré ásamt ýmsum tegundum berjarunna við einn eða fleiri leikskóla bæjarins. Tilgangur þess er að efla vitund og virðingu ungra barna á slíkri ræktun með því að skapa fallegan trjáreit með algjöra sérstöðu. Börnin fá svo að fylgjast með og njóta þeirra ávaxta sem ræktunin vonandi skilar.

Verkefnið er samstarfsverkefni Rótarýklúbbsins HOF, Garðyrkjufélags Íslands og Garðabæjar.

Á miðvikudaginn var komið að gróðursetningu á Bæjarbóli en sett voru niður tvö eplatré, eitt sætkirsiber, tvö rauðrifs og eitt sólber.

Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands, Linda Björk Jóhannsdóttir verkefnastjóri garðyrkjudeildar Garðabæjar, Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu-og verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands og embættismenn frá Rotaryklúbbnum Hofi í Garðabæ afhentu plönturnar og tóku þátt í gróðursetningu ásamt börnum og starfsfólki frá Móholti.

Að lokum sungu börnin í þakkarskyni lag um vináttuna fyrir gestina og fengu að smakka á gómsætum rauðum eplum sem skorin voru með sérstöku áhaldi. Börnin voru meðvituð um mikilvægt hlutverk sitt við að passa upp á plönturnar, hugsa vel um þær á leikskólalóðinni svo þær megi dafna um ókomin ár.

© 2016 - 2021 Karellen