news

Fjársjóðsleit á Bæjarbóli

27. 07. 2020

Í sumar eru heldur betur hugmyndaríkir starfsmenn að störfum á Bæjarbóli. Tveir þeirra, þær Eldey og Inga Katrín ákváðu að gera fjársjóðsleitarleik fyrir börnin á tveimur eldri deildunum.

Leikurinn fór fram í nágrenni leikskólans og tók um það bil 60 mínútur í heild sinni. Í upphafi fengu börnin fjársjóðskortið þar sem mátti sjá myndir af sex stöðum í kringum leikskólann, hver staður er stöð í leiknum þar sem leysa þarf ákveðnar þrautir og verkefni. Í lok hverrar þrautar fengu börnin afhent umslag með mynd. Þegar allar sex myndirnar voru komnar saman var hægt að sjá á þeim hvar fjársjóðurinn var falinn. Þrautirnar voru fjölbreyttar og reyndu á ýmsa færni. Á fyrstu stöðinni þurfti að veiða gyllt lok upp úr vatnskari, á annarri þurfti að finna litaða steina sem búið var að grafa niður í sand, á þriðju þurfti að ganga plankann að hætti sjóræningja, á fjórðu stöðinni þurfti að safna saman beinum, á fimmtu og sjöttu stöðinni voru kastþrautir.


Leikurinn vakti heldur betur lukku, allir þátttakendur fengu sjóræningjagrímu og heimatilbúinn krók á hendina. Fjársjóðurinn var full kista af gullsteinum og rúsínupakkar fyrir svanga þátttakendur.

Í leiknum reyndi á samvinnu þar sem allir voru saman í því að finna fjársjóðinn, leysa þrautirnar og hafa gaman. Starfsmennirnir bjuggu til greinagóðar leiðbeiningar og leikmuni fyrir leikinn svo hægt verður að fara aftur og aftur í fjársjóðsleit á Bæjarbóli.

© 2016 - 2021 Karellen